Er ráðlegt að taka niður alla rafmagns þilofna þegar sett hefur verið upp loft í loft varmadæla?
Nei, varmadælan er orkusparandi viðbót við núverandi hitagjafa byggingarinnar, það gæti þurft að nota hita frá ofnum í herbergjum sem eru mjög langt frá varmadælunni eða þegar mjög kalt er úti og varmadælan nær ekki að anna óskuðu hitastigi. Einnig ber að hafa í huga að herbergi sem eru að jafnaði lokuð t.d fataherbergi, geymslur eða salerni þurfa annan orkugjafa þar sem varmadælan nær ekki að hita þar inni.
Mörg eldri hús eru hönnuð þannig að í þeim eru mörg lokuð rými og því erfitt að ná jafnri dreifingu hita með loft í loft varmadælu í þeim tilvikum er rétt að leita ráðgjafar reyndra uppsetningaraðila til að reyna að finna rétta staðsetningu innihluta dælunnar og jafnvel skoða hvort rétt sé að nota loft í vatn varmadælu sem nýtir hefðbundna vatnshitaofna.
Í öllum tilvikum er ráðlagt að hafa lágmarksfjölda ofna tiltæka í húsnæðinu til að forðast frostskemmdir ef varmadælan stoppar af einhverjum orsökum. Ofnana er þá best að stilla á u.þ.b. 7°C svo að þeir kveiki aðeins á sér í neyðartilvikum.
Hefur kólnandi veður áhrif á varmadæluna?
Hlutfallið af orkunni í útiloftinu sem varmadælan vinnur úr minnkar með kólnandi veðri. Varmadælan vinnur gegn þessu tapi með því að auka afköstin á pressunni til að anna óskuðu hitastigi í byggingunni. Þegar útihitastigið er komið niður undir -25°C eru afköstin orðin fremur lítil. Allar nýjar Fujitsu „Artic“ varmadælur eru þó sérstaklega framleiddar til notkunar á köldum svæðum eins og hér á íslandi sem þýðir m.a. að þær slökkva ekki á sér þó að útihitinn fari niður fyrir -25°C. Varmadælan er mikil hagræðing jafnvel þó að nota þurfi ofna í einu eða fleiri herbergjum er samt mikil sparnaður af hitanum sem varmadælan framleiðir.
Hvaða viðhaldi þarf eigandi varmadælunnar að sinna?
Varmadælurnar eru útbúnar öflugum síubúnaði sem hreinsar stóran hluta svifryks og jafnvel myglugróa úr lofti húsnæðisins.Mikilvægt er að halda loftsíunum í innihlutanum hreinum og lausum við óhreinindi, raka og aðra aðskotahluti. Síurnar eru einfaldar í þrifum og eru hreinsaðar með ryksugu eða blásið úr þeim með loftblæstri og jafnvel skolaðar með volgu vatni ef í þær safnast fita. Ef þú ert í vafa hvernig þú hreinsar síurnar skaltu hafa samband við söluaðilann og hann aðstoðar þig. Athugaðu síurnar a.m.k einu sinni í mánuði til að byrja með síðan sjaldnar eða oftar eftir hversu mikið er í síunum, hversu oft þarf að hreinsasíurnar er breitilegt frá einum stað til annars.
Ef ekki er hugsað um hreinsun síanna fer varmadælan að draga loft og þar með óhreinindi inn um allar glufur og getur það valdið því að taka þarf innihlutann í sundur til hreinsunar. Þetta er talsverð aðgerð og fylgir þessu verulegur kostnaður sem ekki fellur undir ábyrgðarþjónustu. Enn verra er að við mikil óhreinindi í hitaelementinu dregur stórlega úr afköstum varmadælunnar og þeim sparnaði sem vænst var að hún skilaði.
Gæta þarf að því utanhússparturinn safni ekki á sig snjó, laufum o.þ.h. skola má eða bursta grillið á útihlutanum með mjúkum bursta eftir þörfum, gæta skal varúðar við þetta grillið er viðkvæmt. Undir eðlilegum kringumstæðum er ekki þörf á að eiga við utanhússhlutann.
Getur kaupandinn sett varmadæluna upp sjálfur?
Nei, uppsetninguna þurfa sérþjálfaðir menn að sjá um vegna meðferðar á kælimiðli og raftenginga og einnig til að tryggja að staðsetningin á einingum kerfisins sé eins góð og mögulegt er við viðkomandi aðstæður. Þannig er leitast við að varmadælan skili tilætluðum afköstum og að tryggja endingu hennar og viðhaldi ábyrgðar.
Kveikir varmadælan sjálfkrafa á sér ef rafmagnið fer af?
Já varmadælan kveikir nær alltaf sjálfkrafa á sér aftur þegar rafmagnið er komið á, í einstaka tilvikum getur þó þurft að endurræsa hana ef um mikið spennuflökt hefur verið að ræða á raforkukerfinu. Því veldur innbyggð vörn varmadælunnar svo hún eyðileggist ekki við meiriháttar spennubreytingar
Hvernig er varmadælan endurræst?
Það er gert þannig að slökt er á varmadælunni með fjarstýringunni og rafmagnið síðan tekið af henni í um 3 mínútur þá er rafmagnið sett aftur á og hvítum endursetningarhnapp sem staðsettur er hægramegin undir síulokinu haldið inni þar til operation ljósið kviknar og dælan fer í gang. Operation ljós = Gangljós
Operation ljósið logar stöðugt og það merkir að varmadælan er í eðlilegri virkni ljósið er ýmist rautt eða grænt eftir tegundum, yfirleitt rautt á eldri gerðum Fujitsu varmadælanna
Operation ljósið á framhlið innihlutans blikkar rólega hvað merkir það
Sjálfvirk afhrýming á sér stað í utanhúspartinum. Tækið gerir þetta sjálft og stýrist það af raka og hitastigi utanhúss. Þetta getur við verstu aðstæður gerst með allt niður að hálftíma fresti. Meðan á afhrímingu stendur er blásarinn inni stopp. Afhrýming tekur um 5-10 mínútur.
Operation ljósið og timer ljósið blikka bæði.
Ef bæði ljósin blikka í takt eða með ólíkum fjölda blikka gefur það til kynna villuboð sem stýring varmadælunar sendir út, villukóðinn sem birtist getur orsakast af truflun á virkni dælunnar s.s. spennuflökti eða bilunum og best er að ráðfæra sig við þjónustuaðila um aðgerðir og túlkun á kóðanum sem ræðst af því hve oft annað eða bæði ljósin blikka. Gott er að telja fjölda blikka beggja ljósa áður en haft er samband við þjónustuaðila.
Varmadæla með sjálfvirkri síuhreinsun (Nocria AWYZ14) er stopp og innanhúss-parturinn blikkar rauðu maintenance Ijósi.
Þetta á bara við um varmadælur með sjálfvirkri síuhreinsun. Losaðu síuhylkin framan af vélinni og ryksugaðu úr þeim ef þörf er á. Hreinsaðu sjálfar síurnar með því að ryksuga eða blása úr þeim, ef mikil fita og föst óhreinindi hafa safnast í síurnar getur þurft að skola úr þeim með volgu vatni t.d. með sturtuhandtækinu. Settu síurnar aftur í hylkið og gættu þess að þær falli rétt í sætið í innihlutanum og þvingist ekki. Endurræstu varmadæluna með fjarstýringunni og ýttu á endursetningarhnappin örstutta stund (1 sek). Ef tækið stöðvast strax aftur og maintenance ljósið logar hafðu þá samband við þjónustuaðila.
Á vatn að leka úr utanhússpartinum?
Ristarnar á útihlutanum verða mun kaldari en loftið sem flæðir um þær og þá þéttist raki á ristunum sem lekur síðan niður um affallsgat á húsi vélarinnar. Við mikinn kulda frýs þessi raki og varmadælan setur þá af stað afhrýmingu eftir þörfum.
Hvers vegna lætur varmadælan mismunandi frá degi til dags?
Þetta er vegna þess að pressan og viftan í utanhússpartinum eru hraðastýrðar eftir álagi og keyra á mismunandi hraða eftir hitaþörf byggingar og útihita.
Stundum kemur lágt hviss úr innitækinu. Hvað veldur?
Við afhrýmingu útihlutans breytist flæði kælimiðilsins gegnum fjórvirkan ventil. Þegar ventillinn breytir flæðinu og snýr virkni vélarinnar gæti þetta hljóð heyrst.
Hvers vegna heyrast smá brestir í innihlutanum?
Plasthlífar utan um innihlutann og festingar á álhúsi varmagjafans í innihlutanum þenjast eða rýrna ögna þegar hitabreytingar verða í tækinu þessi breyting á spennu í plastinu gæti valdið því að smá brestir heyrist frá tækinu.
Hvers vegna verður breyting á viftuhraðanum þó að hann sé stilltur á hæstu stillingu?
Varmadælan er með sjálfvirkri stýringu á afköstum sem breytir hraðanum á viftunni ef hitinn í varmagjafanum verður of lítill t.d í miklum frosthörkum, þá lækkar tækið hraðann á viftunni til að viðhalda eða auka hitann í varmagjafanum, þetta gerist einnig ef varmadælan er stillt á lægstu stillingu til að hindra að dælan skili of miklum hita.
Hversu stórt hús nær varmadælan að hita?
Erfitt er að svara því einungis eftir fermetra fjölda byggingar. Aðrir þættir eins og stærð rýma milliveggir, einangrun, og lofthæð ráða miklu og einnig hvort um einnar eða tveggja hæða hús er að ræða. Hafið þó hugfast að jafnvel þó að varmadælan nái ekki að anna heildar varmaþörf byggingar er allaf mikill sparnaður af þeim varma sem dælan gefur frá sér.